Atburđir

« Apríl »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
Nćstu atburđir

Ćfingar

Æfingar eru einu sinni í viku, á fimmtudögum kl. 19:30 - 22:30 í Hnífsdalskapellu. 

Langar þig að prófa? Við tökum vel á móti þér! Kíktu við HÉR.

Saga Karlakórsins Ernis

Karlakórinn Ernir

Karlakórinn Ernir varð til árið 1983 eftir óformlega samvinnu um hríð milli Karlakórs Ísafjarðar, Karlakórsins Ægis í Bolungarvík og Karlakórs Þingeyrar. Kórarnir voru mannfáir hver um sig og háði það kórastarfinu. Metnaður kórfélaga var mikill og þeir vissu, að án samvinnu næðu kórarnir ekki þeim gæðum og þroska, sem stór, sameiginlegur kór hefði möguleika á.

 

Fyrsta starfsárið, 1983, hafði kórinn tvo stjórnendur, þá Ólaf Kristjánsson í Bolungarvík og Kjartan Sigurjónsson á Ísafirði. Frá þessum tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og þó nokkrir komið að stjórn kórsins. Þeir eru Ralf Hall frá Wales, Wolfgang Tretzsch frá Þýskalandi, Guðrún Jónsdóttir, Hannes Baldursson og Maria Jolanta Kowalczyk frá Póllandi, Beáta Joó frá Ungverjalandi. Nú stjórnar Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir kórnum.

 

Að sjálfsögðu hefur kórinn notið margra frábærra undirleikara og eru þeir m.a: Guðrún Bjarnveig Magnúsdóttir, James Haugton frá Bretlandi, Guðbjörg Leifsdóttir, Maria Ciriacou frá Wales, Zsuzsanna Budai frá Ungverjalandi, Hólmfríður Sigurðardóttir, Michael Arthur Johns frá Bretlandi, Elzbieta Anna Kowalczyk frá Póllandi og Margrét Gunnarsdóttir. Undirleikari er nú Pétur Ernir Svavarsson.

 

Kórinn er vanalega með tónleika á jólaaðventu og á vorin og er þá sungið á Þingeyri, í Bolungarvík og á Ísafirði. Þar fyrir utan syngur kórinn við ýmsa viðburði og við útfarir. Kórinn hefur einnig farið í margar tónleikaferðir innan- og utanlands. Í því sambandi nefna ferðir til Wales, Finnlands, Rússlands, Færeyja, Póllands, Ungverjalands, Ítalíu og Vesturheims.

 

Karlakórastarf í Bolungarvík

Starfssemi karlakóra á sér allnokkra sögu í Bolungarvík. Fyrsti karlakór sem heimildir eru til um, var Karlakór Ungmennafélags Bolungarvíkur. Hann var stofnaður árið 1915. Stjórnandi hans var Halldór Hávarðarson.

 

Rúmlega tuttugu árum síðar, í janúar 1936, var hins vegar stofnaður Karlakór Bolungarvíkur, sem telja má undanfara Karlakórsins Ægis í Bolungarvík. Íbúar Bolungarvíkur voru þá tæplega 700 talsins.

 

Fyrsti stjórnandi kórsins var Sr. Páll Sigurðsson sóknarprestur í Bolungarvík. Á tíu ára afmæli kórsins sagði einn kórfélaga, Finnbogi Bernódusson, hinn kunni fræðaþulur, að sér. Páll hefði verið „sá eldstólpi sem sífellt hefir gengið á undan og hvatt til dáða og áframhalds". Séra Páll var söngstjóri kórsins á meðan hans naut við, en hann lést árið 1949.

 

Á ýmsu gekk í starfssemi kórsins á árunum er á eftir komu. Stundum var lítil starfssemi, en jafnan reyndu félagar að æfa dagskrá til flutnings á sjómannadeginum, enda er sá dagur einn helsti hátíðisdagur byggðarlagsins.

 

Sigurður E. Friðriksson var um mörg ár helsta driffjöturinn í starfi kórsins og stjórnaði honum lengi. Um tíma var Kristján Júlíusson, kennari, stjórnandi kórsins og naut líka fulltingis Sigríðar Nordquist, tónlistarkennara. Hún hafði um langt árabil verið máttarstólpi í tónlistarlífi Bolungarvíkur.

 

Eftir að Ólafur Kristjánsson fyrrum bæjarstjóri í Bolungarvík réðst til starfa sem skólastjóri Tónlistarskóla Bolungarvíkur stjórnaði hann karlakórnum lengst af.

 

Séra Gunnar Björnsson tók við stjórn karlakórsins árið 1980 og gegndi henni fram til ársins 1982. Á þeim árum var meðal annars farið í vel heppnaða söngferð til Færeyja eða vorið 1981.

 

Frá því á haustdögum 1982 stjórnaði Ólafur Kristjánsson Karlakórnum Ægi í Bolungarvík eða þar til Karlakórinn Ernir var stofnaður 1983.

 

Karlakór Ísafjarðar

Karlakór Ísafjarðar var stofnaður 5. maí 1922. Þeir menn sem nefndir eru til sögunnar á þessum undirbúningsstofnfundi voru þeir Jón Hróbjartsson, kennari, Sigurgeir Sigurðsson prestur, Ólafur Pálsson kaupmaður , Jónas Tómasson bóksali og Þórður Jóhannsson úrsmiður. Segir í fundargerð „að einhverjir vildu fresta kórstofnun" en þó varð kórinn í heiminn borinn á þessum fundi, 5. maí 1922 og nefndur Karlakór Ísafjarðar, að tillögu Ólafs Pálssonar.

 

Eins og gefur að skilja skiptust á skin og skúrir í lífi Karlakórs Ísafjarðar allt frá stofnun hans. Þau skeið komu, sem kórinn lág í hýði, lengur eða skemur eftir atvikum, en þó var mest um vert að alltaf auðnaðist honum framhaldslíf og þá sérstaklega eftir samvinnu við Karlakórinn Ægi og fleiri frábæra söngvara annarstaðar að af norðursvæði Vestfjarða.

 

Stjórnandi kórsins frá 1980 til sameiningar var Kjartan Sigurjónsson fyrrum skólastjóri og organisti á Ísafirði. Síðasta stjórn Karlakórs Ísafjarðar var þannig skipuð : Torfi Einarsson, þáverandi lögregluvarðstjóri formaður, Finnur Finnsson kennari ritari og Bjarni Jóhannsson viðskiptafræðingur gjaldkeri.

 

Karlakórsstarf á Þingeyri

Saga karlakórsstarfs á Þingeyri hófst árið 1906 þegar Bjarni Pétursson skólastjóri barnaskólans stofnaði karlakórinn Svan og var hann stjórnandi hans til 1914 er hann flutti búferlum til Reykjavíkur. Einnig stofnaði hann lúðraflokk á Þingeyri árið 1910 en hljóðfæri voru fengin lánuð frá Reykjavík.

 

Meðal verkefna annaðist Karlakórinn Svanur ásamt sönghópi frá Þingeyri allan söng á héraðshátíðinni á Hrafnseyri 1911 undir stjórn Bjarna Péturssonar, ásamt því að lúðraflokkurinn spilaði nokkur lög undir stjórn hans.

 

Síðustu skráðu heimildir um karlakórinn Svan eru frá skemmtikvöldi íþróttafélagsins Höfrungs sem haldið var 3. apríl 1923, þá undir stjórn Ólafs Ólafssonar skólastjóra.

 

Á árunum uppúr 1930 var karlakórinn Þrestir stofnaður og var stjórnandi hans Baldur Sigurjónsson trésmiður og organisti á Þingeyri. Karlakórinn Þrestir hélt konserta á gamlárskvöld og dansleiki á eftir ár hvert í fjölda ára og fór í söngferðir til næstu byggðarlaga. Baldur Sigurjónsson starfaði sem söngstjóri og organisti á Þingeyri í 40 ár.

 

Snemma árs 1976 var enn einn karlakór stofnaður á Þingeyri. Þá stofnaði Tómas Jónsson sparisjóðsstjóri (áður skólastjóri) Karlakór Þingeyrar og stjórnaði hann honum til 1994. Með Tómasi störfuðu sem undirleikarar og raddþjálfarar Marie Mercer, fyrstu árin og síðar Guðbjörg Leifsdóttir tónlistarkennari. Fékk hann oft til kórsins gestastjórnendur og má þar meðal annarra nefna Kjartan Sigurjónsson og séra Gunnar Björnsson.

 

Ýmislegt dreif á daga kórsins, meðal annars var farið í söngferðalög til næstu byggðarlaga, sungið á Vestfjarða-kynningu á Hótel Loftleiðum, haldnar voru söngskemmtanir „syngjandi páskar” um nokkurra ára skeið ásamt kirkjukór, samkór og Harmonikkuhljómsveit Þingeyrar. Á árunum 1984 og 1994 var meðal annars farið í söngferðalög til Bíldudals. Farið var með varðskipi frá Þingeyri til Bíldudals og haldin söngskemmtun og dansleikur á eftir siglt heim að skemmtun lokinni.

 

Árið 1993 komu til Þingeyrar hjónin Guðmundur Vilhjálmsson og Helga Aðalheiður Jónsdóttir tónlistarkennarar og tóku við stjórn tónlistarskóla Þingeyrar. Enn á ný tók sönglíf í Dýrafirði mikinn fjörkipp. Guðmundur stjórnaði Karlakór Þingeyrar í tvö ár. Einnig stofnaði og stjórnaði hann lúðrasveit nemenda tónlistarskólans og spilaði hún meðal annars, á Ísafirði og í Bolungarvík.

 

Karlakór Þingeyrar kom fram við ýmis tækifæri fram til 1983 undir stjórn Sigurðar G. Daníelssonar o. fl. en starfaði ekki reglulega á þeim tíma.


Vefumsjón